Hvers vegna?

Það þarf nú varla að svara þessu. Merkimiðar á bjór geta þjónað ýmsum tilgangi. Sumir merkja bjórinn sinn einfaldlega til að vita hvaða flaska inniheldur nýja fölölið og hvaða flaska er 2 ára gamli súrbjórinn. Aðrir vilja hafa innihaldslýsinguna utan á flöskunum svo allir geti lesið sem smakka. Svo má líka hanna merkimiðana sína einfaldlega því það er flott og töff!

Þessi grein er hugsuð sem vangaveltur um eiginleika merkimiða og hvernig er sniðugast að nálgast hönnun þeirra.

Hvernig?

Til eru ýmsar leiðir til að útbúa merkimiða fyrir bjórinn þinn. Einfaldast væri að setja nafn og upplýsingar inn í Word, prenta út á blað, klippa niður og setja á bjórinn. Það er jafnvel hægt að taka Word pælinguna lengra og fullgera miðann sinn þar með myndum, munstrum og öllu. Jafnframt er hægt að teikna einfalda mynd í MS Paint eða ámóta einföldu forriti. Í stuttu máli sagt þá skaltu velja þér forrit sem hentar því sem þú vilt gera. Sjálfur nota ég Adobe Photoshop og fyrir enn lengra koma virðist Adobe Illustrator lofa góðu. Til eru líka ókeypis forrit sem duga vel og mæli ég með Gimp sem raster (pixla) mynda forrit og Inkscape fyrir vector.

Ég vil strax taka það fram að það er ekki til neinn heilagur sannleikur þegar kemur að hönnun og því bið ég ykkur um að lesa þessa umfjöllun með það í huga. Ég er ekki lærður hönnuður (eða sérstaklega hæfileikaríkur) og hef ekki fengið neina kennslu á myndvinnsluforrit nema í gegnum netið. Eftirfarandi eru mínar skoðanir og atriði sem hafa hjálpað mér. Takið úr því það sem hentar ykkur og endilega fiktið ykkur áfram; þannig er best að læra.

Góð leið til að móta sér skoðun um það hvernig miða þú vilt hafa á flöskunum þínum er einfaldlega að skoða bjórflöskur; bæði heimabruggaðar og frá brugghúsum. Myndir frá Jóladagatali Fágunar 2015 og 2016* eru til að mynda frábær samsuða mismunandi miðahönnunar og er tilvalið að fletta í gegnum þær. Það er nefnilega engin skömm af því að fá innblástur frá öðrum; bara ekki stela hugmyndinni algerlega.

*Þú getur skoðað myndir frá Jóladagatali Fágunar 2016 með því að skoða pósta frá 1.-24. Desember 2016 á facebook síðu þeirra.
Það má lengi vinna með fídusana í Word í blandi við myndir af alnetinu

Stærð

Líklega er gáfulegast að byrja á því að tala um stærðir á miðum. Þar eru nokkur praktísk atriði sem koma inn í: Hvernig passar miðinn á flöskuna, hve miklar upplýsingar viltu hafa á miðanum og hvernig er hagkvæmast að prenta þá út? Enn og aftur er ekkert eitt rétt svar við þessum spurningum en þó nauðsynlegt að velta þeim fyrir sér.

Hefðbundin brún 33cL bjórflaska þolir í mesta lagi 11x19cm stóran miða, en ég mældi það út frá flösku frá Borg. Ef þú skiptir einu hefðbundnu A4 blaði upp í fjóra helminga færðu A6 stærð sem er 10,5x14,8cm og passar það bara ansi vel á flöskurnar. Þannig má nota allan pappírinn og fæst nóg pláss á hvern miða til að koma á framfæri ýmsum upplýsingum. Mér þykir það í raun heldur stórt en það passar vel fyrir útlit miða minna og hef ég því haldið mig við það hingað til. Þú getur í raun notað hvaða stærð sem er svo lengi sem hún er innan þessara 11x19cm. Ef ég á að mæla með einhverri einni sérstakri stærð myndi ég ráðleggja að hafa miðan ekki mikið hærri en 8-9cm og ekki breiðari en 11cm.

Miðarnir geta verið að ýmsri stærð og lögun; með miklum texta eða litlum.

Í skapandi greinum er oft sagt „less is more“ og er það vel í flestu. Gerðu samt bara það sem þér finnst flottast og endilega prófaðu þig áfram með mismunandi pælingar.

Hráefnin

Nú ert þú uppfullur af krafti og þori til verks og ætlar að hefjast handa við að brugga upp merkimiða. Þá þarftu að huga að hráefnunum; að grunneiningunum.

Ég held að það sé ágætt að byrja á formum. Form eru út um allt og þú munt nota þau við hönnunina. Mér finnst fínt að byrja á því að átta mig á því hvernig ég vil að miðarnir líti út; jafnvel áður en ég ákveð hvað á að standa á þeim. Á miðinn að vera algerlega kassalaga með einföldum texta? Viltu taka klassíska sporöskjulaga lúkkið? Væri ekki pínu töff að vera með svona fljótandi borða?

Öll myndvinnsluforrit hafa verkfæri sem gera þér kleift að búa til hringi, kassa eða önnur einföld form. Því er lítil þörf á að tala sérstaklega um það hér. Þú getur haft miðann ferkanntaðan með hring eða sporöskju inni í eða öfugt eða bara texta í einföldu formi. Ekki láta mig segja þér til verka.

 

Önnur flóknari form getur verið erfiðar að búa til án sérstakrar þekkingar. Það eru t.d. ýmsar leiðir til að búa til borða: Þú getur einfaldlega leitað að einhverjum tómum borða á google myndaleit eða reynt að búa þá til sjálfur í Photoshop. Fyrir næstum hvert einasta verkefni í Photoshop og öðrum myndvinnsluforritum má finna aragrúa af misgóðum kennslumyndböndum á alnetinu; notaðu þau. Þetta myndband sýnir til dæmis afbragðs leið til að búa til borða.

Það má líka hugsa út fyrir kassann, bókstaflega.

Margir vilja hafa einhverja mynd á miðanum sínum; einhvern karakter, humla, korn eða annað bjórtengt. Það er ekkert að því að næla sér í eina mynd af google og setja hana á bjórmiðann sinn svo lengi sem maður er að nota þetta fyrir sjálfan sig. Það er hinsvegar miklu skemmtilegra að búa til eitthvað sjálfur. Þú getur þá bæði reynt að teikna beint inn í Paint eða Photoshop eða krassað eitthvað á blað, skannað það inn og fíngert það í myndvinnsluforriti. Enn og aftur segi ég: Gerðu það sem þú vilt og taktu þér tíma í það.

 

Litir

Litir passa misvel saman. Það eru heilmikil vísindi á bakvið þetta en mér hefur fundist þægilegast að hugsa um þetta í nokkrum einföldum flokkum: Fyrst passa litir yfirleitt vel saman ef þeir eru í raun sami grunnliturinn en með meira og meira gráu eða hvítu í. Svo passa litir vel saman ef þeir eru andstæðir á litrófinu; en þetta skýrir til dæmis hið margnotaða blár/appelsínugulur þema. Að lokum eru það ákveðnir hópar lita sem passa vel saman byggt fremur á „stemmingunni“ í þeim, ef svo má komast til orða; þá er ég að tala um t.d. „jarðliti“, „neonliti“ eða „pastelliti“.

Hérna er dæmi um einfalt litaþema; mismunandi bláir og brúnir.

Það eru til mun fróðari menn um litaval heldur en ég og hvet ég ykkur eindregið til að leita eftir greinum og myndböndum á alnetinu sem skýra þetta betur. Tvær síður sem mér þykir mjög sniðug þegar að litavali kemur er Colourcode og Paletton.

Límaðferðir

Textinn hér að ofan er fyrst og fremst hugsaður til að koma einhverjum hugmyndum fyrir í kollum ykkar. Nú er hinsvegar komið að praktískum atriðum og beinhörðum staðreyndum; það nefninlega skiptir öllu máli að fá merkimiðana til að halda sér á flöskunum en ekki allar aðferðir til þess jafn góðar.

Límstifti og mjólk koma svipað vel út.

Allir sem leggja upp með að hafa ómerktar flöskur undir heimabruggið sitt þekkja pirringinn sem fylgir því að ná ekki límklessunum undir brugghúsamiðunum af flöskunum. Við ættum því öll að vera sammála því að það lím sem við veljum okkur ætti að hafa amk þrjá eiginleika:

  1. Það verður að vera auðvelt og fljótlegt að setja merkimiðana á tóma flösku
  2. Límið verður að halda sér lengi og það má heldur ekki vera augljóst (svo sem lykt, sjáanlegar klessur eða þess háttar).
  3. Það verður að vera auðvelt og fljótlegt að taka merkimiðana af og þeir mega ekki skilja eftir sig far

Eflaust eru til fjölmargar sniðugar lausnir, en ég vildi minnast hérna á þrjá flokka sem uppfylla þessi skilyrði nokkuð vel: Mjólk, límstifti og límband.

Mjólkin hefur margoft verið rædd á heimabruggshópnum á Facebook og á Fágunarspjallinu. Framkvæmdin er einföld og árangurinn mjög góður. Best er að hafa mjólk til reiðu í litilli skál, svo dýfir þú fingri ofan í hana og strýkur meðfram könntum útklippts miðans, en það þarf aðeins örþunnt lag af mjólk til að líma pappír við gler. Fyrir kassalaga A6 miða þótti mér duga best að setja mjólk á alla kanntana og svo X í miðjuna. Óþarft er að þekja allan papírinn. Síðan seturðu pappírinn varlega á flöskuna, þrýstir þéttingsfast og þurrkar alla aukalega mjólk af sem kann að sprautast út frá köntunum. Eftir einungis nokkrar sekúndur er miðinn fastur. Á nokkrum mínútum þornar svo mjólkin og er þá orðin að lími. Þetta er algerlega lyktarlaust í minni reynslu og dugar að er virðist í ótakmarkaðan tíma. Þegar kemur að því að losa miðann af flöskunni þarf einungis að setja hana undir heitt vatnsbað í nokkrar sekúndur og allt húrrast af án nokkurra ummerkja.

Límstifti eru líka ansi sniðug leið til að festa miða á. Þú þarft ekki að flýta þér að festa miðann á flöskuna eins og með mjólkina og þau virðast haldast jafn vel með sömu „kassi og X“ aðferð og með mjólkina. Undir heitu vatni losna miðarnir svo auðveldlega af eins og með mjólkinni og ekkert far situr eftir. Mér hefur þó stundum fundist kanntarnir ekki festast nógu vel með límstiftinu.

Einfaldasta ráðið er svo án efa glært límband til að halda miðanum við flöskuna. Framkvæmdina þarf ég nú ekkert að útskýra sérstaklega. Að mínu mati er þó ekki jafn þægilegt að losa miðana af ef notað er hefðbundið glært límband. Það vill rifna upp í litla búta og festast klessur við glerið, sérstaklega ef límmiðinn er gamall.

Að lokum

Ég vona að þessi grein komi hugmyndaflugi þínu af stað og hjálpi þér að nálgast miðahönnun sem hentar þér. Að lokum ætla ég að láta fylgja nokkur mynddæmi frá mér og Helga: