Hugmynd

Hugmyndin er að karamellusera hunangið (sjá Caramelization á Wikipedia) til þess að dekkja litinn á miðinum auk þess að ná fram einstaklega ljúffengum bragðeiginleikum sem minna á hnetur og marsipan. Ferlið er bæði hættulegt og virkilega skemmtilegt og fyllir auk þess eldhúsið af einstaklega góðum ylmi.

Tölur

 

Lítrar í gerjun 4 L
Hunangsmagn 1,35-1,6
Áfengismagn ca. 13%
Suðutími 30-40 mín
OG 1.100-1.125
FG 1.000-1.038

Hunang

1,35-1,6 kg Lífrænt Villiblómahunang frá Sollu (fæst í Bónus og fleiri stöðum).

Eða í raun hvaða hunang sem þú vilt nota. Eins og gildir með alla mjaðargerð og bjórgerð skipta gæðin á hráefnunum öllu máli. Veldu alvöru hunang sem þér þykir gott á bragðið!

Eitt sem þú þarft að hafa í huga með þennan mjöð sérstaklega, er að hunangið er fyrst soðið eitt og sér, án þess að bæta við vatni. Það mun gjörbreyta útlitinu, bragðinu og lyktinni á því. Ef hunangið er mjög bragðsterkt getur suðan jafnvel dregið það ennþá meira fram.

Ef þú vilt tiltölulega þurrann mjöð, notaðu þá minna af hunangi (3x450 gr). Ef þú vilt sætan mjöð, notaðu þá meira hunang (3,5x450gr). Áfengisprósentan ætti að vera sú sama, en ætti hæst að vera 14%, sem eru efri þolmörk gersins.

Ger

Lalvin 71B-1122​ - einn pakki

Aðferð

Hunanginu er komið fyrir í mjög stóran pott. Það getur verið hjálplegt að setja hunangskrukkurnar í heitt vatnsbað til að mýkja það upp fyrst. Þegar hunangið er allt komið í pottinn er settur miðlungs-til-meðalhár hiti á helluna og hunangið hitað hægt og rólega upp að suðu. Hrærið í allan tímann með sleif úr ryðfríu stáli.

Hunangi hellt í pottinn

Leyfðu hunanginu að sjóða, eða krauma öllu heldur, þangað til að lyktin í eldhúsinu er orðin eins og brenndir sykurpúðar í bland við möndlur eða marsipan. Þetta gerist venjulega þegar hunangið hefur verið soðið í kringum 30-40 mínútur og liturinn á því hefur dökknað töluvert og er orðinn dökkbrúnn. Stillið hitann til þess að halda góðri suðu allan tímann, og mundu að hræra í allan tímann!

Það er heitt í pottinum!

Þegar réttum ylmi og lit er náð skalltu taka pottinn af hita og bæta við einum til tveimur lítrum af sjóðandi heitu vatni eða nóg til að leysa upp hunangið. Hrærðu þar til allt hunangið er leyst upp í vatnið og færðu þá pottinn í kalt vatnsbað, með klökum ef þú átt þá. Hrærðu og kældu hunangsblönduna niður í um það bil 20°C.

Því næst er hunangsblöndunni bætt út í sótthreinsað gerjunarílát og fyllt er upp að 4 lítrum eða eðlisþyngd sem nemur 1.100-1.125 (eftir því sem við á). Síðan er næringarefnum og geri bætt við.

Hunangsblöndunni hellt í gerjunarílát eftir að búið er að kæla hana niður

Gerjað er við 18-20°C í 2-3 vikur. Því næst skal fleyta yfir í annað ílát til þess að leyfa miðinum að verða flottur og tær. Ef þú vilt geturðu fleytt honum aftur 1-2 vikum seinna til að fá hann ennþá tærari. Þegar þér finnst hann vera orðinn nægilega tær og góður á bragðið (og gerjun er lokið) geturðu sett hann á flöskur.

Brenndi mjöðurinn kominn í flösku
Brenndi mjöðurinn í glasi

Athugasemdir

Eins og með alla miði er nauðsynlegt að sinna gerinu vel. Bleyttu upp í því áður en þú bætir því við. Bættu við nauðsynlegri næringu (í nokkrum skrefum) og sjáðu til þess að leysa kolsýruna úr lausn í gerjun.

Ég mæli með því að leyfa þessum miði að vera án kolsýru í flöskum auk þess að setja á glærar flöskur sem taka við korki. Það er svo fallegt að sjá þennan mjöð í fallegri flösku!

Varúðarkomment:

Hunang þennst mikið út þegar það sýður. Notaðu því pott sem rúmar vel rúmlega hunangið. Annað sem hafa þarf í huga er að þegar vatni er hellt út í sjóðandi heitt hunang vaknar það aftur til lífs og getur gosið upp og fleygt brennandi heitum hunangsdropum fjúgandi í allar áttir. Sjóðandi heitt hunang skilur eftir sig brunasár!

Hérna er svo skemmtilegt myndband sem sýnir mögulega sögulega-nákvæmari nálgun við að gera þennan mjöð: